Leyni-Jólagestur hjá Eivör

20191206-215936-MummiLu.jpg

Ég fékk að vera leynigestur hjá henni Eivöru Páls í Hörpunni síðustu helgi. Það var hrikalega gaman. Ég held mikið uppá Færeyjar og Færeyinga og hef gert lengi eða síðan ég spilaði þar fyrst.. sem ég held að hafi verið 2006, þá var ég á G-festivalinu og féll algjörlega fyrir staðnum og fólkinu. Það var svo höfðinglega tekið á móti mér og hljómsveitinni, ekki bara hljómleikahaldarar heldur allir sem maður hitti. Ég var t.d. kominn vel í glas þarna eitt kvöldið og að ráfa um bæinn - búinn að týna fólkinu mínu, þá ætla ég að míga þarna út í einhverju horni og hélt að enginn vissi af mér - þá röltir einn heimamaðurinn út úr húsinu sínu, kveikir í sígó og segir “það eru öll hús opin hérna vinur, þarft ekki að míga þarna frekar en þú villt, má bjóða þér sígó eða bjór?” Ég hreinlega man ekki hvað klukkan var en ég man að ég varð ástfanginn af staðnum. Fór nokkrum árum seinna aftur á G-festivalið.. sennilega sumarið 2011, þá var ég ættleiddur af fjölskildu í bænum og eignaðist mömmu og pabba og nokkur systkini. Yndislegt. 


Í hljómsveitinni hennar Eivarar eru nokkrir eldhressir tónlistarmenn. Ég hef nokkrum sinnum hitt Eivöru og gauranna hennar á hlaupum hér og þar, svona baksviðs stemming, en það er alltaf svo stuttur hittingur. Núna náðum við aðeins að kynnast og hafa gaman. Þau voru á milljón að æfa fyrir tónleikana með öllu fólkinu sem kom að þessu, ég var bara með í 3 lögum, annars var ég bara útá bílastæði í Geimskipinu mínu að hljóðblanda/mixa fyrir Gullregn, bíómynd eftir Ragnar Bragason (meir um það seinna), og svo var ég að reyna semja líka. En annarslagið fór ég inn til þeirra í kaffi og svo fengum við okkur mat og vín á kvöldin. Mikael Blak spilaði á Kontrabassa og Syntha/hljóðskrímsli, þau Eivör voru saman í Clickhaze á sínum tíma. Hann hefur spilað með Teiti, Benjamin, Gudrid og fullt af fólki. Súperklár og skemmtilegur gaur. Per I. Höjgaard spilaði á trommur og jóladrasl, frábær, dýnamískur og fyndinn. Mattias Kapnas, Finnski Grikkinn alinn upp í Færeyjum og spilar svona líka vel á píanó. Svo voru með Eivöru Reykjavík Session Orchestra  og Barnakór söngskólans. Toppstöff. 


Helgi Jónsson og Tina Dickow sungu með Eivöru, ésúss minn hvað þau gerðu það vel, ekkert nema gæsahúðaveisla. Raddirnar þeirra blönduðust sérstaklega vel saman og svo er svo gaman að hlusta á svona fagmenn. Svo kom ég brussuskrímslið af véstan og gaulaði með henni í smá stund.. svakalega gaman. Eivör er engri lík, ótrúleg rödd! Galdrakélling og Sjarmatröll af bestu gerð. Ég held að fólk hafi almennt skemmt sér vel, ég skemmti mér allavega konunglega. Takk fyrir að fá að vera með.

MugisonComment